Ein af afleiðingum hruns fjármálakerfisins og þeirrar efnahagskreppu sem skollin er á verður sú að hagnaði af fíkniefnaviðskiptum verður í auknum mæli varið til fjárfestinga hérlendis en það er ein af meginniðurstöðum skýrslu um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi sem ríkislögreglustjóri gaf út í dag.
Þar kemur fram að erfitt efnahagsástand og mikið atvinnuleysi muni á næstu árum setja mark sitt á þá skipulögðu glæpastarfsemi sem haldið er uppi á Íslandi. Umskiptum þessum fylgir að margir nýir möguleikar munu skapast fyrir afbrotamenn.
Þá kemur einnig fram í skýrslunni að greiningadeild ríkislögreglustjóra telji að íslenskir aðilar séu stórtækastir í skipulögðum fíkniefnaviðskiptum hér á landi. Þó kemur fram að Hópar íslenskra ríkisborgara og hópar sem eiga upptök sín utan Íslands standa einnig fyrir skipulögðum innflutningi á fíkniefnum til Íslands.