Innlent

Kærir RÚV til lögreglunnar

Ástþór Magnússon hefur kært RÚV til lögreglunnar. Mynd/ Anton Brink.
Ástþór Magnússon hefur kært RÚV til lögreglunnar. Mynd/ Anton Brink.
Ástþór Magnússon hefur kært fréttastofu og yfirstjórn Ríkisútvarpsins til lögreglunnar fyrir kosningaspjöll gegn Lýðræðishreyfingunni, stjórnmálaflokki Ástþórs. Segir Ástþór að RÚV hafi logið um og afskræmt svar Lýðræðishreyfingarinnar með vísvitandi og meiðandi hætti þegar flutt var frétt undir fyrirsögninni „Skattahækkanir líklegar".

Samkvæmt því sem Ástþór segir var fullyrt í fréttaskýringunni að allt útlit sé fyrir að skattar verði hækkaðir að loknum kosningum. Forsvarsmenn allra stjórnmálahreyfinga nema Framsóknarflokks hafi sagt slíkt líklegt í leiðtogaumræðum í Sjónvarpinu í fyrrakvöld. Þá hafi verið birtir útdrættir úr svörum allra fulltrúa stjórnmálahreyfinga á fundinum nema Lýðræðishreyfingarinnar.

Ástþór segir að Lýðræðishreyfingin hafi ekki gefið það svar við þessari spurningu að hækka beri skatta enda séu þau með allt aðrar hugmyndir og

boðskap um hvernig leysa eigi úr efnahagsvanda þjóðarinnar. „En lýðskrumarar RÚV hafa nú vísvitandi blekkt þjóðina og unnið

alvarleg kosningaspjöll með því að leggja orð í munn Lýðræðishreyfingarinnar sem gengur þvert á stefnu okkar," segir Ástþór. Auk þess sem hann sendi kæruna til lögreglunnar hefur hann sent umboðsmanni Alþingis, útvarpsréttarnefnd, menntamálaráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu og kosningaeftirliti ÖSE afrit af henni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×