Innlent

Óttast að biðin eftir betri vegi taki áratug

Ráðamenn á Vestfjörðum óttast að það muni taka áratug að fá almennilegan veg um sunnanverða firðina til Patreksfjarðar og segja það ekki sanngjarnt að tveir til þrír aðilar geti stöðvað framkvæmdir sem þjóni fjöldanum.

Hæstiréttur ógilti nýlega úrskurð umhverfisráðherra um að heimila umdeildan veg um Teigsskóg við utanverðan Þorskafjörð og þvert yfir mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Forystumenn sveitarfélaga á Vestfjörðum funduðu dag með samgönguráðherra og vegamálastjóra um hvernig brugðist verður við en auðheyrt er að biðlundin er að bresta. Ragnar Jörundsson, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir að staðan sé að verða óþolandi, - þeir séu síðastir á landinu í vegarsamgöngum.

Helst vilja þeir að staðið verði við fyrri áform um að fara í gegnum skóginn og þvert yfir firðina en óttast að kærumál muni hindra að íbúar sunnanverðra Vestfjarða fái þá leið. Ragnar segir að um 1.300 manns búi á svæðinu. Að 2-3 aðilar geti stöðvað allar framkvæmdir sé engan veginn sanngjarnt.

Vegagerðin ætlar nú að fara yfir valkosti í stöðunni en Kristján L. Möller samgönguráðherra getur engu lofað um hvenær framkvæmdir hefjast. Hann geti þó sagt að Vegagerðin ætli innan fjögurra vikna að vera búin að uppreikna kostina þannig að menn geti stillt þeim upp með kostnaðartölum.

Fyrir vestan óttast menn að biðin eftir betri vegi geti orðið löng. Bæjarstjóri Vesturbyggðar segir að ef allt fer á versta veg geti það tekið upp undir áratug að fá almennilegan veg.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×