Innlent

Flæktir í mörg hundruð kílóa kókaín smygl

Andri Ólafsson skrifar
Þrír Íslendingar eru grunaðir um að vera flæktir í mörg hundruð kílóa kókaín smygl sem teygir anga sína til 13 landa.Grunur leikur á að Íslendingarnir tengist alþjóðlegum glæpasamtökum sem bendluð eru við fíkniefnamisferli og peningaþvætti.

Málið er gríðarlega umfangsmikið en það hefur verið til rannsóknar í næstum eitt og hálft ár. Fyrsta handtakan var gerð fyrir tveimur vikum en þá var Reykvíkingur á þrítugsaldri handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Í gær lét lögreglan svo aftur til skarar skríða. Um morguninn var farið inn í fyrirtækið R. Sigmundsson en þar var Sigurður Ólason, stjórnamaður fyritækisins handtekinn. Á Litla-Hrauni var Ársæll Snorrason svo handtekinn en hann afplánar þar dóm fyrir fíkniefnamisferli. Sigurður og Ársæll voru báðir úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness fyrir hádegi í dag.

Tveir menn til viðbótar voru handteknir í gær en þeim var báðum sleppt að loknum yfirheyrslum. Þá var einn til viðbótar handtekinn í Hollandi. Sá heitir Johan Hendrik en hann hefur áður komið við sögu í fíkniefnamálum hér á landi

Alls framkvæmdi lögreglan ellefu húsleitir vegna málsins gær en hún hefur notið liðsinnis Europol við rannsóknina. Hún teygir anga sína til 13 landa meðal annars í Evrópu, mið og suður Ameríku.

Til rannsóknar er hvort og eða hvernig Íslendingarnir sem handteknir hafa verið tengist alþjóðlegum glæpasamtökum sem fást við peningaþvætti og fíkniefnamisferli. Þá er sérstaklega til rannsóknar meint tengsl þeirra við karlmann frá botni Miðjarðarhafs sem handtekinn var eftir að Europol lagði hald á nokkur tonn af sykurvökva sem innihélt nokkur hundruð kíló af kókaíni.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er málið án fordæmis á Íslandi. En lögregla verst allra frétta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×