Innlent

Fimm samvaxnir tvíburar taldir hafa fæðst á Íslandi

Tíðni samvaxinna tvíbura er um það bil einir af hverjum hundrað til 200.000 lifandi fæddum, en er 100 sinnum hærri meðal andvana fæddra. Talið er að fimm samvaxnir tvíburar hafi fæðst hér á landi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Þeir Valgarður Egilsson, meinafræðingur og Hannes Petersen háls-, nef- og eyrnalæknir rita greinina sem ber heitið, Samvaxnir tvíburar á Íslandi.

Heimildir um efnið eru fyrst og fremst byggðar á annálum sem ritaðir hafa verið hérlendis gegnum aldirnar. Í greininni segir að um fern pör megi heimildir kallast ótvíræðar og sterkar líkur bendi til hins fimmta. Öll þessi fimm dæm eru um samvöxt á búk.

Fyrstu samvöxnu tvíburarnir hér á landi, sem vitað er um, eru taldir hafa fæðst nokkuð fyrir 1600 undir Eyjafjöllum austur og voru það tvær stúlkur, sem voru báðar skírðar Þuríður. Á vormánuðum 1673 fæddust aðrar tvær stúlkur en þær voru samfastar á bökum.

Tvö meybörn samföst á brjóstunum fæddust síðan í janúar 1745, og voru þær báðar nefndar Guðrún, lifðu þær í ellefu vikur og dóu nærri því á sömu stund, eins og það er orðað í Hrafnagilsannál.

Árið 1802 fæddust síðan tvö stúlkubörn samvaxinn frá öxlum niður til nafla. Síðasta tilfellið hér á landi sem vitað er um var síðan um aldamótin 1900, en þá fæddust einnig tvær stúlkur sem voru samvaxnar á síðunum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.