Innlent

Ólöf Nordal: Slakur árangur kvenna kemur á óvart

Ólöf Nordal, þingmaður.
Ólöf Nordal, þingmaður.

Ólöf Nordal, sem hafnaði í fjórða sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, segir að það hafi komið sér á óvart að konur skyldu ekki fá betri kosningu í prófkjörinu í gær. Ólöf er eina konan í efstu sex sætunum.

Ólöf færði sig úr Norðausturkjördæmi fyrir prófkjörið. Hún fékk rúmlega 2.400 atkvæði í fjórða sætið.

"Ég tók mikla áhættu þegar ég skipti um kjördæmi og er afskaplega þakklát fyrir þann mikla stuðning sem ég fékk," segir Ólöf.

Ólöf segir það vissulega vera vonbrigði að konur skyldu ekki fá betri kosningu í gær. Þrjár konur eru í efstu átta sætunum. Ásta Möller í 7. sæti og Erla Ósk Ásgeirsdóttir í 8. sæti. Flokkurinn fékk 9 þingmenn kjörna í Reykjavík í síðustu kosningum.

"Það er greinilegt að konur eru bara kosnar í neðstu sætin. Það kom mér á óvart og ég hélt að konur ættu meiri möguleika í þessu prófkjöri en áður. Mér fannst andinn vera þannig."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×