Erlent

Þriðjudagar til þrautar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Streitan nær hámarki rétt fyrir hádegi á þriðjudegi.
Streitan nær hámarki rétt fyrir hádegi á þriðjudegi.

Mánudagar eru alls ekki svo slæmir en versti tímapunktur vikunnar er klukkan 11:45 á þriðjudagsmorgnum ef marka má nýja breska könnun.

Næstum því helmingur 3.000 Breta sem tóku þátt í könnun heilsuvöruframleiðandans Bimuno telja mánudag langt í frá versta dag vikunnar þótt jafnan sé rætt um mánudag til mæðu. Það er gamli góði þriðjudagur til þrautar sem er mun nærri lagi og hafa aðstandendur könnunarinnar náð að kortleggja dæmið svo ítarlega að þeir telja sig geta haldið því fram að nákvæmlega stundarfjórðung fyrir hádegi á þriðjudögum upplifi þátttakendur á breskum vinnumarkaði mestu lægð vinnuvikunnar.

Mánudagurinn er nefnilega alls ekki svo slæmur þar sem margir verja honum í að kynna sér á Facebook og öðrum samskiptavefjum hvað vinir og vandamenn voru að bralla um helgina. Það kemur þeim í gegnum þann vinnudaginn en hrákaldur raunveruleikinn skellur svo á þeim eins og blaut tuska á þriðjudagsmorgni og nær hryllingurinn hámarki rétt fyrir hádegi. Um þetta eru 53 prósent þátttakenda í könnuninni sammála en tíu prósent segjast fresta verkefnum á mánudegi og skauta gegnum daginn með aðstoð Facebook sem margir vinnuveitendur eru enda farnir að fordæma.

Einn af hverjum fimm segist svo vinna fram eftir á þriðjudegi til að bæta upp fyrir leti mánudagsins og koma verkefnastöðunni í eðlilegt horf. Þá finnur rúmlega helmingur aðspurðra fyrir streitu í vinnunni og að meðaltali fara átta klukkustundir á viku í streitu- og tilfinningatengda vanlíðan, sem sagt ígildi heils vinnudags.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×