Innlent

Bílavarahlutir hafa hækkað um tæp 40%

Kostnaður við rekstur ökutækja hefur hækkað um 14 prósent á síðustu tólf mánuðum samkvæmt rannsókn Rannsóknarseturs verslunarinnar. Bílavarahlutir hafa hækkað um tæp 40 prósent. Rúmlega 6.600 ferðavagnar eru enn óskoðaðir en eigendur þeirra verða rukkaðir um sérstakt vanrækslugjald frá og með 1. október.

Það eru ekki einungis bílalánin sem hafa rokið upp í kreppunni heldur einnig kostnaður við rekstur ökutækja.

Verð á bílavarahlutum hefur hækkað um rúm 38 prósent og verð á bílaviðgerðum um tæp 5 prósent á síðustu tólf mánuðum samkvæmt rannsókn Rannsóknarseturs verslunarinnar. Kostnaður við rekstur ökutækja hefur hækkað um 14 prósent á tímabilinu.

Hækkunin er að mestu rakin til veikingar krónunnar sem hefur skilað sér í hækkun varahluta og eldsneytis.

Bifreiðaeigendur þurfa einnig að greiða fyrir skoðun ökutækja en samkvæmt vef umferðarstofu er enn rúmlega 6.600 ferðavagnar, bifhjól og húsbílar óskoðaðir á landinu. Frestur til að fara með ökutæki í skoðun rennur út 1. október en þá geta eigendur átt von á að verða rukkaðir um sérstakt vanrækslugjjald.

Fram kemur vef umferðarstofu að 13 prósent allra skráðra bilfhjóla í landinu séu enn óskoðuð en þetta eru um 1.300 bifhjól. Þá á enn eftir að skoða um fimm þúsund ferðavagna og um 253 húsbíla. Með ferðavögnum er átt við tjaldvagna, fellhýsi og hjólhýsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×