Linda Björk Magnúsdóttir, sem situr í fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að vera ólöglegur innflytjandi þar í landi er fyrrverandi forstöðumaður í sértrúarsöfnuði. Söfnuðurinn hét Frelsið, kristileg miðstöð, og var starfræktur á árunum 1995 - 2001.
Sigríður Lund Hermannsdóttir, útvarpskona á FM, var ein þeirra sem störfuðu með Frelsinu. Hún segir að margir þeirra sem störfuðu í þessari kirkju hafi farið illa út úr því. „Þetta splundraðist allt saman upp með þessu framhjáhaldi hennar við 20 ára strák í kirkjunni," segir Sigríður.
Sigríður segir að Linda Björk og eiginmaður hennar hafi skilið eftir sig tugmilljónaskuldir þegar safnaðarstarfinu lauk árið 2001. Skuldirnar hafi lent á fólki sem starfaði í söfnuðinum. Safnaðarstarfið hafi auk þess verið þannig að Linda Björk og eiginmaður hennar hafi drottnað mjög mikið yfir fólkinu sem starfaði í honum. Sigríður segir að Linda og eiginmaður hennar hafi því skilið marga eftir bæði fjárhagslega og tilfinningalega gjaldþrota. Fólk sé hins vegar búið að ná sér af þeirri lífsreynslu núna.