Írska flugfélagið Ryanair hefur boðist til þess að láta fimm þúsund evrur, jafnvirði um 480 þúsund króna, renna til góðgerðasamtaka til þess að ná sáttum í deilu við Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta og kærustu hans, Cörlu Bruni.
Deiluna má rekja til auglýsingar sem birt var í franska blaðinu Le Parisien á mánudag. Í henni var mynd af parinu þar sem Bruni var að láta sig dreyma um brúðkaup með forsetanum.
Bruni hefur farið fram á 500 þúsund evrur í bætur, um 48 milljónir króna, vegna auglýsingarinnar og heldur því fram að það sé hefðbundið verð fyrir mynd af henni.
Flugfélagið tekur það ekki í mál. Forsvarsmenn þess hafa beðist afsökunar á að hafa notað mynd af parinu í leyfisleysi en bjóða parinu sitt hvora evruna í dómssátt eða fimm þúsund evrur til góðgerðasamtaka sem parið velur.