Innlent

Krefjast fundar vegna ríkisfjármála

Bjarni Harðarson.
Bjarni Harðarson.

Framsóknarþingmennirnir Bjarni Harðarson og Magnús Stefánsson hafa farið fram á það að tafarlaust verði haldinn sameiginlegur fundur fjárlaganefndar og efnahags- og skattanefndar til þess að ræða þá stöðu sem nú er uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar og ríkisfjármálum. Segja þingmennirnir í greinargerð að kunnara sé en frá þurfi að segja að miklar viðsjár séu nú í efnahagsmálum þjóðarinnar og ráði þar mestu hin alþjóðlega fjármálakreppa sem einkenni allan hinn vestræna heim. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar við þessar aðstæður veki athygli, Seðlabankinn hafi gripið til þeirra ráða sem hann hefur en einn og sér geti hann ekki stýrt efnahagsmálum þjóðarinnar.

Þá segir að nauðsynlegt sé að gætt sé samhljóms og samræmis í aðgerðum Seðlabanka og ríkisstjórnar en á það hafi mikið skort hina síðustu mánuði. Bjarni fer enn fremur fram á að fjárlaganefnd fundi þegar í stað um skýrslu um Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og fái til fundar við sig fulltrúa Ríkisendurskoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×