Innlent

Koma fyrir neti hjá rúllustiga

Forráðamenn Rúmfatalagersins á Akureyri hafa komið fyrir neti þar sem stúlka féll 6 metra niður úr rúllustiga fyrir skömmu. Öryggi barna er tryggt, segir verslunarstjóri.

Ný verslun Rúmfatalagersins á Glerártorgi hafði aðeins verið opin í örfáar klukkustundir þegar fjögurra ára stúlka fór yfir handriðið við rúllustiganna og féll niður á gólfið tæpum 6 metrum neðar. Hún slapp ótrúlega vel. Aðgerð var gerð á andliti hennar á Landspítalanum en ekki er talið að skaði hennar verði til langframa.

Vinnueftirlitið hafði gefið grænt ljós á rúllustigann og handriðið enda er stiginn í engu frábrugðinn öðrum rúllustigum á landinu. Eftir slysið var Rúmfatalagernum gert að ráða öryggisvörð til að koma í veg fyrir frekari slys en nú hefur verið strengt net sem tekur fallið af börnum eða öðrum þeim sem kunna að falla þarna niður og er því ekki lengur þörf á öryggisverði.

Verslunarstjóri Rúmfatalagersins segir að menn bíði frekari ákvarðana í samvinnu við fleiri aðila. Netið sé umfram þær öryggiskröfur sem gerðar hafa verið í búðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×