Innlent

Einn til viðbótar handtekinn í Keilufellsmálinu

Maðurinn var handtekinn í Röstinni um sexleytið í dag.
Maðurinn var handtekinn í Röstinni um sexleytið í dag. MYND/Víkurfréttir-Þorgils

Einn maður til viðbótar hefur verið handtekinn í Keilufellsmálinu svokallaða þegar hópur Pólverja réðst að samlöndum sínum í húsi í Keilufelli á skírdag. Lögreglan á Suðurnesjum handtók manninn í Röstinni í Reykjanesbæ og naut aðstoðar sérsveitar Ríkislögreglustjóra við handtökuna.

Friðrik Smári Björgvinsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að handtakan hafi gengið vel og að maðurinn sé nú á leið til borgarinnar í lögreglufylgd. Friðrik vildi lítið tjá sig um rannsókn málsins en staðfesti að handtakan í kvöld hafi verið í tengslum við atburðina í Keilufelli. Maðurinn verður að líkindum yfirheyrður í kvöld og ákveðið í framhaldinu hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir honum.

Fjórir menn til viðbótar hafa verið handteknir vegna málsins en talið er að árásarmennirnir hafi verið 10 til 12. Einn hinna slösuðu liggur enn á spítala með samfallið lunga, brotinn handlegg og brotna augntótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×