Innlent

Vilja sektir fyrir þá sem ekki láta skoða bíla á réttum tíma

MYND/Heiða

Þeir sem vanrækja að fara með bílinn sinn í skoðun á tilsettum tíma gætu átt yfir höfði sér 30 þúsund krónur í sekt verði frumvarp um breytingar á umferðarlögum samþykkt. Hér er um hámarksupphæð að ræða og hefur ráðherra svigrúm innan þessara marka til að ákveða endanlega upphæð gjaldsins.

Fram kemur á vef samgönguráðuneytisins að drög að slíku frumvarpi liggi fyrir hjá ráðuneytinu og er hægt að veita umsögn um það til mánaðamóta. Bent er á í tilkynningu ráðuneytisins að markmiðið með frumvarpinu sé að auka umferðaröryggi með því að fækka óskoðuðum ökutækjum í umferðinni.

Alls voru tæplega 260 þúsund ökutæki skráð hér á landi um síðustu áramót og var um tíunda hvert þeirra óskoðað. Segir í tilkynningu samgönguráðuneytisins að þetta sé með öllu óviðunandi ástand út frá umferðaröryggissjónarmiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×