Innlent

Árásarmennirnir ófundnir

Lögreglan leitar enn að sex til átta manns sem grunaðir eru um að hafa brotist inn á heimili í Keilufelli í gær og ráðist með kylfum á sjö karlmenn sem þar bjuggu. Rannsóknin beinist meðal annars að því að fá staðfestan framburð fórnarlambanna um að um pólskt glæpagengi hafi verið að ræða.

Það var síðdegis á laugardag sem tíu til tólf pólskir karlmenn réðust inn í húsið í Keilufelli, vopnaðir kylfum, exi, slaghömrum og járnröri. Eins og fram kom í fréttum stöðvar 2 í gær þá réðust þeir á íbúa hússins, sjö pólska karlmenn, og slösuðu þá, þar af einn þeirra alvarlega. Fórnarlömbin segja árásarmennina vera úr pólsku glæpagengi sem beiti landa sína kúgunum og ofbeldi. Lögreglan handtók á laugardag fjóra menn sem taldir eru eiga aðild að árásinni og voru þeir allir úrskurðaðir í þriggja vikna gæsluvarðhald. Leit að hinum sex til átta stendur enn yfir. Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns þá stendur rannsóknin enn yfir og beinist hún meðal annars að því að athuga hvort rétt sé að árásarmennirnir séu hluti af pólsku glæpagengi. Samkvæmt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þá er vitað um nokkur önnur tilfelli þar sem pólverjar hafa ráðist á samlanda sína og var til að mynda tilkynnt um eitt slíkt í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×