Innlent

Fundu 20 kíló af dínamíti

Lögreglan á Suðurnesjum fann um 20 kílógrömm af dínamíti við Þorbjörninn í Grindavík í gærkvöld. Er hér um að ræða 6 stykki af rúmlega 3 kílógramma dínamítstúpum.

Ekki er vitað hvernig dínamítið komst á þessar slóðir en sprengjudeild landhelgisgæslunnar var kölluð til og fjarlægði hún efnið. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að dínamítið hafi verið farið að „svitna" vegna hitabreytinga og því verið mjög hættulegt. Lögreglan biður þá sem gætu gefið upplýsingar um dínamítið að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 420-1800.

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði ökumann í Reykjanesbæ í gærkvöld, grunaðan um akstur undir áhrifum fíkniefna. Við leit á ökumanninum fundust um 3 grömm af meintu amfetamíni.

Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbrautinni. Þeir mældust á 131 og 127 km/klst. þar sem hámarkshraðinn er 90 km/klst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×