Innlent

Matsferli hafið við virkjun á Þeistareykjum

Matsferli er hafið við 150 megawatta virkjun á Þeistareykjum sem og tvær háspennulínur vegna álvers á Húsavík.

Skipulagsstofnun hefur kynnt tillögu að matsáætlun um lagningu tveggja háspennulínu frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka við Húsavík vegna fyrirhugaðs álvers á Húsavík. Línurnar munu ná yfir fjögur sveitarfélög Aðaldælahrepp, Norðurþing, Þingeyjarsveit og Skútustaðahrepp, um 60 kílómetra leið. Ráðgert er að framkvæmdatími við lagningu háspennulínanna verði tvö ár. Tímasetning framkvæmdanna ræðst af framvindu virkjana á háhitasvæðunum sem og viðræðum um hugsanleg orkukaup. Núverandi áætlanir gera ráð fyrir að fyrsti áfangi framkvæmda við flutningsvirkin verði tilbúin fyrri hluta árs 2012.

Þá hafa Þeistareykir ehf. hafa lagt fram tillögu að matsáætlun vegna Þeistareykjavirkjunar, allt að 150 megawatta jarðhitavirkjun í Aðaldælahreppi og Norðurþingi. Tillagan verður kynnt hjá Skipulagsstofnun til 10. apríl næstkomandi og hafa allir rétt á að leggja fram athugasemdir.

Alcoa hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um hvort fyrirtækið reisir álver á Bakka eða ekki, það mun skýrast á næstu mánuðum. Ef af verður mun álverið að langmestu leyti verða knúið gufuafli frá Þeistareykjum, Kröflu, Gjástykki og Bjarnarflagi í Mývatnssveit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×