Innlent

Aftakaveður á Kirkjubæjarklaustri

Kirkjubæjarklaustur.
Kirkjubæjarklaustur. Mynd/ GVA

Aftakaveður er nú á Kirkjubæjarklaustri og fyrir austan Klaustur. Þar fjúka þakplötur og ýmislegt lauslegt og fólki er bent á að vera ekki á ferðinni að óþörfu.

Ófært er um Víkurskarð, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Varað er við versnandi veðri á Vestfjörðum, Norður- og Norðausturlandi. Á Suðurlandi er víðast greiðfært. Á Vesturlandi er hálkublettir og skafrenningur er á Holtavörðuheiði og á Fróðárheiði og snjóþekja er á Bröttubrekku.

Á Vestfjörðum er stórhríð og snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði og þar er ekkert ferðaveður. Hálkublettir og éljagangur er í Ísafjarðardjúpi.

Snjóþekja og skafrenningur á Mikladal og á Hálfdáni. Mjög slæmt veður er á Klettshál og þar er ekkert ferðaveður.

Snjóþekja og éljagangur er á Öxnadalsheið. Þæfingsfærð og skafrenningur er í Dalsmynni. Hálkublettir og stórhríð er á Tjörnes. Óveður er á Mývatnsöræfum, Möðrudalsöræfum og Sandvíkurheiði, þæfingsfærð á Vopnafjarðarheiði og þungfært á Biskupsháls og þar er ekkert ferðaveður.

Á Austurlandi eru hálkublettir á Fjarðarheiði og í Oddskarði, á öðrum leiðum eru auðir vegir. Ófært er á Öxi og á Breiðdalsheiði.

Á Suðausturlandi er víðast greiðfært en mikill skafrenningur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×