Innlent

Svavar ánægður með Kaupmannahafnarfundinn

Svavar Gestsson, sendiherra í Kaupmannahöfn.
Svavar Gestsson, sendiherra í Kaupmannahöfn.

Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, segir að ráðstefnan um íslensk efnahagsmál sem haldin var þar í borg í síðustu viku hafi verið sérstaklega vel heppnuð. Húsfyllir var og komust færri að en vildu. Nokkuð hefur verið fjallað um dræmar undirtektir danskra fjölmiðla á málinu og talað um að fundurinn hafi ekki verið nægilega vel kynntur. Sendiráðið kom að skipulagningu fundarins og segir Svavar að þar á bæ séu menn ánægðir með árangurinn.

„Fundurinn var mjög vel kynntur sem sást á því að það var troðfullt hús. Við bjuggumst við 80 til 90 manns og á endanum mættu á bilinu 160 til 170. Við þurftum að bregða á það ráð að taka niður skilrúm á milli tveggja sala til að rúma fjöldann," segir Svavar í samtali við Vísi. Hann segir að á fundinn hafi mætt fulltrúar fjölmiðla auk fólks úr viðskiptalífinu í Danmörku.

Svavar segist undrast umræðu á Íslandi um lítinn áhuga danskra fjölmiðla. „Það var í raun meiri dekkun á þessum fundi en á mörgum öðrum sambærilegum, meðal annars birtist mikil umfjöllun um hann í Berlingske svo dæmi sé tekið." Aðspurður hve mikil áhersla hafi verið lögð á að kynna fundinn segir Svavar að sú vinna hafi verið meiri en oft áður, „sem skilaði sér í þessari gríðarlegu aðsókn." Svavar segir að kynningarmálin fyrir fundinn hafi verið unnin í sendiráðinu auk þess sem viðskiptaráð hafi komið þar að málum. Þá voru dönsk ráðgjafafyrirtæki einnig höfð með í ráðum.

„Við vorum mjög ánægð með þennan fund sem var satt að segja dálítill success, á góðri íslensku," sagði Svavar Gestsson, sendiherra í Kaupmannahöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×