Innlent

Kærir Remax Esju til eftirlitsnefndar

Andri Ólafsson skrifar
Ragnar Magnússon
Ragnar Magnússon

Athafnamaðurinn Ragnar Magnússon ætlar að kæra fasteignasöluna Remax Esju til eftirlitsnefndar fasteignasala vegna fasteignaviðskipta sem hann átti við fasteignasöluna síðasta ári.

Um er að ræða tvenn viðskipti sem fram fóru á árinu 2007.

Annars vegar kaup félags Ragnars á 50 hektarar landi úr Breiðabólstað, Borgarfirði, af félaginu Ægisauði ehf. Forsenda Ragnars fyrir kaupunum var yfirlýsingar fasteignasala Remax Esju sem og seljenda, sem fram kom í kaupsamningi, að um væri að ræða 54 eignarlóðir sem búið væri að skipuleggja fyrir íbúðarbyggð. Ragnar greiddi 45 milljónir króna, með versluninni Gallerí húsgögn, sem hann setti upp í kaupin, fyrir lóðirnar. Í dag liggur hins vegar ekki enn fyrir staðfest skipulag um íbúðarbyggð á svæðinu. Árangurslaust fjárnám var gert hjá Ægisauði í janúar síðast liðnum.

Hins vegar er um að ræða kaup Ragnars á á 4 íbúðum við Strandgötu á Eskifirði. Remax Esjan hafði milligögu um kaup en seljandi var Fjárfestingarfélagið Klif ehf. Svo virðist sem það félag sé í eigu Sigfúsar Aðalsteinssonar starfsmanns Remax Esju. Samkvæmt vanskilaskrá er búið að gera árangurslaust fjárnám hjá Klifi ehf. og félagið væntanlega á leið í gjaldþrot.

Ragnars hyggst leita réttar síns vegna þessara mála og er ekki loku fyrir það skotið að þau rati inn á borð dómstóla.

Ekki náðist í Ragnar Magnússon vegna vinnslu þessarar fréttar en hann er erlendis.

Þetta eru ekki einu deilurnar sem hann stendur í þessa daganna því hann kærði sjö einstaklinga til lögreglu fyrr í mánuðinum fyrir að hafa þvingað sig til að láta af hendi skemmtistaði sem hann var eigandi að á síðasta ári. Tveir þeirra sem Ragnar kærði voru að hans sögn fengnir til að handrukka hann.

Þorbjörn Pálsson fasteignasali sá um fasteignaviðskiptin sem Ragnar vill að eftirlitsnefnd fasteignasala fjalli um. Í samtali við Vísi í dag sagðist hann ekki hafa séð erindi Ragnars til nefndarinnar og vildi því ekki tjá sig um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×