Innlent

Hvetur Íslendinga og Norðmenn til að hætta hvalveiðum

Peter Garret, umhverfisráðherra Ástralíu, hvetur Íslendinga og Norðmenn til að virða bann við atvinnuhvalveiðum. Þetta kemur fram í ástralska blaðinu Sydney Morning Herald.

Þar er vísað til þess að sjávarútvegsráðherra íhugi að gefa út hrefnuveiðikvóta á þessu sumri en Félag hrefnuveiðimanna hefur farið fram á það. Þá hafa stjórnvöld í Noregi þegar gefið út hvalveiðikvóta. „Til þess að vernda hvalastofna þurfa allar þjóðir að fara að lögum," segir Garret.

Alþjóðahvalveiðiráðið fundaði í Lundúnum fyrir skemmstu þar sem reynt var að komast að samkomulagi en Garret segir grafið undan hvalveiðibanni þegar þjóðir ákveði einhliða að veiða dýrin. „Bæði Noregur og Ísland segjast hafa rétt til þess að veiða hvali þar sem þjóðirnar hafi mótmælt hvalveiðibanninu á sínum tíma," segir Garret.

Hann hvetur ríkisstjórnir landanna til þess að hætta hvalveiðum og vinna ásamt öðrum þjóðum að því að varðveita og stjórna uppbyggingu hvalastofna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×