Innlent

Skattamál Jóns Ólafs í 6 ár til rannsóknar

Jón Ólafsson
Jón Ólafsson

Ákvörðun verður tekin um það á næstu vikum hvort ákæra verði gefin út gegn Jóni Ólafssyni athafnamanni, vegna meintra skattsvika. Skattamál Jóns hafa verið í rannsókn hjá Ríkisskattstjóra og Ríkislögreglustjóra í á sjötta ár, en tilraunir hans fyrir dómstólum til að fá rannsóknina fellda niður, hafa ekki borið árangur.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn á skattskilum Jóns Ólafssonar í lok febrúar 2002. Jóni var gefið að sök að hafa skilað efnislega röngum skattframtölum vegna tekjuáranna 1998-2001, vantalið eignir sínar, ætlaðan söluhagnað af eignum og launatekjur.

Rannsókn Skattrannsóknarstjóra lauk fyrir tæpum fimm árum, og var málinu vísað til rannsóknar ríkislögreglustjóra í lok desember sama ár. Þar hefur málið verið til rannsakað áfram án þess að ákæra væri gefin út.

Jón höfðaði mál á hendur ríkislögreglustjóra árið 2006. Hann krafðist þess að rannsóknin yrði felld niður vegna þess að samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu væri óheimilt að tvírannsaka og tvírefsa fyrir sama brot. En skattrannsóknarstjóri hafði þá beitt Jón skattsektum vegna málsins og á of langa málsmeðferð. Kröfu Jóns var hafnað bæði í héraði og í Hæstarétti.

Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari efnahagsbrota hjá Ríkislögreglustjóra segir rannsókn málsins hafa lokið fyrir um einu ári. Málið sé umfangsmikið, annir starfsmanna embættisins miklar og því hafi málið tafist. Búast megi við niðurstöðu á næstu vikum.

Ragnar Aðalsteinsson lögmaður Jóns segir málið snúast um mismunandi túlkun á skattalögum, þar á meðal hvort skattleggja skyldi Jón í Lundúnunum þar sem hann bjó með fjölskyldu sinni eða í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×