Jöklar á Íslandi hopa sem aldrei fyrr og hefur þróunin í þá átt verið sérstaklega ör á undanförnum áratug. Sem dæmi má nefna að á þeim tíma hefur Vatnajökull rýrnað um þrjú prósent og Langjökull um átta prósent.
Þessar upplýsingar komu frá á Raunvísndaþingi sem haldið var um helgina. Helgi Björnsson, rannsóknarprófessor á raunvísindadeild Háskóla Íslands, segir að síðustu tíu árin hafi Vatnajökull hopað um einn metra á ári að meðaltali. Í magni er hér um 80 rúmkílómetra að ræða.
Hvað Langjökul varðar er er bráðnunin enn meiri en rannsóknir sýna að hann hefur tapað átta prósenum af umfangi sínu á fyrrgreindu tímabili.
Þeir sem leið eiga um Þórsmörk á hverju ári hafa vel getað sé þróunina á Gígjöklinum sem gengur niður á Eyjafjallajökli. Hann hefur hopað um heilann kílómetra á síðustu tíu árum.
Segir jökla ekki hverfa á næsta áratug
Magnús Tumi Guðmundsson, formaður Jöklarannsóknarfélagsins, segir að ekki sé rétt sem fram kemur í frétt á Vísi um að jöklar heimsins gætu horfið á næsta áratug. „Þetta á kannski við um einhverja smájökla í Evrópu en ekki annars staðar," segir Magnús Tumi.
Magnús bendir á að samkvæmt því sem fram kom í máli Helga Björnssonar á Raunvísindaþinginu muni það taka 100 til 200 ár fyrir íslensku jöklana að hverfa alveg. Er þá miðað við að þróunin verði sú sama og verið hefur undanfarin tíu ár.