Innlent

Skattleysismörk helmingi hærri ef persónuafsláttur hefði fylgt launavísitölu

Skattleysismörk væru nærri helmingi hærri í dag ef persónuafsláttur hefði fylgt launavísitölu síðastliðin tólf ár samkvæmt útreikningum ASÍ.

Í nýútkominni skýrslu OECD kemur fram að skattbyrði hér á landi hafi aukist á undanförnum árum. Er meðal annars bent á í því samhengi að persónuafsláttur hafi ekki hækkað í samræmi við verðbólgu - og hafi því í raun rýrnað.

Frá árinu 1996 hefur persónuafslátturinn hækkað um tæpar tíu þúsund krónur. Úr tæpum 25 þúsund krónum í þrjátíu og fjögur þúsund.

Rétt er að taka fram að á sama tíma hefur hlutfall staðgreiðslu lækkað úr tæpum 42prósentum í 35,72 prósent - eða um 6 prósentustig.

Skattleysismörkin eru nú rúmar 95 þúsund krónur en fara á næstu tveimur árum upp í 125 þúsund krónur samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Á persónuafslátturinn að hækka um 7 þúsund krónur á næstu þremur árum umfram almennar verðuppfærslur.

Forvitnilegt er hins vegar að skoða hvernig persónuafslátturinn hefði þróast ef hann hefði fylgt vísitölu neysluverðs síðastliðinn tólf ár. Þá væri hann nú tæpar 39 þúsund krónur eða um fimm þúsund krónum hærri en hann er í dag samkvæmt útreikingum hagdeildar Alþýðusambandins. Skattleysismörkin væru samkvæmt því um 108 þúsund krónur.

Hefði persónuafslátturinn hins vegar fylgt launavísitölunni hefði hann rúmlega tvöfaldast á síðustu tólf árum og væri nú rétt rúmar 56 þúsund krónur. Skattleysismörkin væru um 157 þúsund krónur eða um þrjátíu þúsund krónum hærri en yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×