Innlent

Eiginkona Guðmundar í Byrginu vill þrjár milljónir í skaðabætur

Andri Ólafsson skrifar
Helga vill þrjár milljónir.
Helga vill þrjár milljónir.

Helga Haraldsdóttir, eiginkona Guðmundar Jónssonar í Byrginu, hefur stefnt Erlu Hlynsdóttur, blaðamanni DV, og tveimur viðmælendum hennar, Magnúsi Einarssyni og Ólöfu Ósk Erlendsdóttur, fyrir meiðyrði sem Helga segir að hafi verið höfð um sig í helgarblaðsviðtali sem DV birti þann 2. ágúst í fyrra.

Helga krefst þess að fjöldinn allur af ummælum sem Erla hafði eftir viðmælendum sínum verði ómerkt og að sér verði greiddar þrjár milljónir í skaðabætur.

Viðtalið sem um ræðir bar fyrirsögnina "Árásir Satans". Í því greindu Magnús og Ólöf frá meintum kynlífsathöfnum sem Helga átti að hafa tekið þátt í ásamt eiginmanni hennar, þáverandi forstöðumanni meðferðarheimilis, og öðrum vistmönnum.

Þá héldu viðmælendur DV því einnig fram að Helga hefði haft vitneskju um kynferðislega misnotkun eiginmanns síns á vistmönnum meðferðarstofnunar og að hún hafi tekið þátt í þjálfun vistmanna sem drottnara í lesbísku kynlífi.

Vísir hefur stefnuna, sem Helga hefur birt þeim Ólöfu, Magnúsi og Erlu, undir höndum. Í henni segir að hún hafi orðið fyrir verulegum skaða á tilfinningar- og sálarlífi. Hún hafi einnig orðið fyrir verulegri röskun, óþægindum og ýmisskonar þjáningum.

Guðmundur Jónsson, eiginmaður Helgu, bíður dóms í máli ákæruvaldsins gegn sér en honum er gefið að sök að hafa misnotað fjóra vistmenn Byrgisins kynferðislega. Viðtalið var tekið á meðan þau mál voru í rannsókn.

Athygli vekur að Helga Haraldsdóttir stefnir blaðamanninum sem skrifar viðtalið en ekki ritstjórum og ábyrgðarmönnum blaðsins sem viðtalið birtist í.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×