Innlent

Rukkað í fjögur ár í viðbót fyrir ferð í göngin

Svo gæti farið að vegfarendur um Hvalfjarðargögnin þurfi að borga veggjald fjórum árum lengur en til stóð til þess að fjármagna ný göng.

Við sögðum frá því í fréttum okkar í gær að gerðar hafa verið tilraunaboranir í Hvalfjarðargöngunum, til að kanna möguleika á því að leggja ný göng samhliða núverandi göngum, til að mæta aukinni umferð um Hvalfjarðargöngin. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin um hvort og þá hvenær ný göng verða grafin. Forsvarsmenn Spalar sem reka Hvalfjarðargöngin telja að eftir um sex ár anni göngin ekki lengur þeirri umferð sem um þau er og þá þurfi ný göng að vera tilbúin.

Hvalfjarðargöngin eru fjármögnuð að fullu með veggjöldum. Samkvæmt samningi sem í er gildi á Spölur að skila göngunum til ríkisins þegar þau hafa verið greidd að fullu. Talið var að það yrði ekki fyrr en árið 2018 en nú er búist við að það verði árið 2014. Hugmyndir eru uppi um að í stað þess að hætt verði að rukka veggjald árið 2014 þá verði veggjald rukkað í fjögur ár í viðbót og sá peningur notaður í ný göng.

Gylfi Þórðarson, framkvæmastjóri Spalar, hefur enga trú á því að vegfarendur verði látnir greiða fyrir ný göng að fullu eins og gert var með núverandi göng. Ákvörðun um hvort að ný göng verði reist er í höndum stjórnvalda svo og hvernig að því verði staðið. Gylfi segir að það taki um þrjú ár að grafa göngin eftir að ákvörðun um þau verði tekin og því sé mikilvægt að það sé gert tímanlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×