Innlent

Ágúst neitar að tjá sig um kæru - Nemendur ósáttir

Andri Ólafsson skrifar
Ágúst Einarsson, rektor á Bifröst
Ágúst Einarsson, rektor á Bifröst

Ágúst Einarsson vildi ekkert tjá sig um gagnrýni sem fram hefur komið á vinnubrögð sem hann viðhafði þegar hann rak þrjá nemendur úr skólanum síðustu mánaðarmót.

"Nemendunum var vísað úr skóla. Ég hef engu við það að bæta," sagði Ágúst þegar hann var spurður um málið.

Töluverð ólga er á meðal margra nemenda á Bifröst vegna málsins. Mörgum þykir sem gengið hafi verið hart fram gegn þremenningunum en stór hópur vopnaðra lögreglumanna réðst inn á heimili þeirra og hafði þaðan allt í allt um 0.5 grömm af fíkniefnum.

Í tveimur tilfellum voru ung börn viðstödd þegar vopnaðir lögreglumenn réðust til inngöngu.

Vísir hefur rætt við tvo af þeim nemendum sem reknir voru vegna málsins. Þeir segja það grundvallarreglu í réttarríkjum að menn séu saklausir uns sekt er sönnuð. Þeim þykir undarlegt að yfirmaður stofnunar sem kennir lögfræði refsi mönnum þegar mál er á frumstigi og benda á að aðeins einn af þeim þremur sem leitað var hjá hefur viðurkennt að vera eigandi að fíkniefnunum sem fundust.

Það að vera grunaður um verknað er ekki að vera sekur segja nemendurnir.

Eins og fram kom hér ætla þeir að kæra Ágúst Einarsson til siðanefndar háskólans. Þá ætla þeir líka að kæra staðfestingu háskólaráðs á brottvísun þeirra úr skólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×