Innlent

Vilja greiða 30 þúsund vegna biðar eftir dagvistun

Meirihlutinn í Reykjavíkurborg vill greiða foreldrum barna átján mánaða og eldri sem bíða eftir leikskólaplássi eða annarri dagvistun rúmlega þrjátíu þúsund krónur fyrir hvert barn á meðan þeir bíða eftir dagvistunarúrræðum. Málið verður lagt fyrir leikskólaráð Reykjavíkurborgar á næstu dögum.

Mikil mannekla hefur verið í leikskólum borgarinnar undanfarið ár og hafa biðlistar barna átján mánaða og eldri eftir leikskólaplássi lengst töluvert. Meirihlutinn í borginni vill koma til móts við foreldra barna úr þessum aldurshópi sem bíða eftir leikskólaplássi eða annarri dagvistun.

Hugmyndir eru um að foreldrum verði greiddar rúmlega þrjátíu þúsund krónur fyrir hvert barn á mánuði á meðan þeir bíða eftir leikskólaplássi svo þeir geti gripið til annarra dagvistunarúrræða og greitt fyrir það. Greiðslurnar myndu þá nema niðurgreiðslum borgarinnar sem nú þegar renna til dagforelda fyrir átta tíma vistun á dag.

Tillögurnar verða lagðar fyrir leikskólaráð á næstu dögum og nánari útfærslur kynntar á leikskólasviði. Áslaug Friðriksdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem situr í leikskólaráði, segir að fleiri hugmyndir verði einnig skoðaðar í tengslum við þetta og nefnir til að mynda eflingu dagforeldraþjónustunnar og þjónustu einkarekinna leikskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×