Innlent

Opinbert hlutafélag rekur flugmálastjórn og Leifsstöð

Samgönguráðherra hefur lagt fram frumvarp að stofnun opinbers hlutafélags um rekstur flugvallarsvæðis Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en með þessu verða flugmálastjórn á vellinum og rekstur flugstöðvarinnar sameinaðar.

Gert er ráð fyrir að félagið verði allt í eigu ríkisins og sala þess óheimil. Samgönguráðherra á fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að fara með hlut ríkisins í félaginu.

Áfram er gert ráð fyrir rekstri verslana með tollfrjálsar vörur á flugvallarsvæðinu og starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur, rekstur flugvalla og flugstöðvar.

Samgönguráðherra verður samkvæmt frumvarpinu heimilað að gera þjónustusamning við hið nýja félag um uppbyggingu og rekstur flugvallarsvæðisins og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þá er utanríkisráðherra heimilað að gera samning við félagið um not þess af öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og mannvirkjum Atlantshafsbandalagsins.

Gert er ráð fyrir að félagið hefji starfsemi 1. júní og yfirtaki þá rekstur flugvallarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli og rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×