Innlent

Ellefu ára drengur þungt haldinn á sjúkrahúsi

Fimleikar.
Fimleikar.

Drengur á ellefta ári liggur þungt haldinn eftir atvik sem varð í íþróttahúsinu Versölum í Kópavogi um kvöldmatarleytið í gær. Drengurinn var á íþróttaæfingu hjá fimleikafélaginu Gerplu þegar hann missti skyndilega mátt og féll niður á dýnur sem lágu á gólfinu. Félagar drengsins og íþróttaþjálfarar gerðu sér fljótlega grein fyrir því að ekki var allt með felldu og komu drengnum til hjálpar.

Þjálfarar drengsins beittu fyrstu hjálp og kölluðu til lækni og sjúkralið. Drengurinn var svo fluttur á sjúkrahús, þar sem hann liggur nú þungt haldinn undir stöðugu eftirliti. Foreldrar iðkenda voru upplýstir um að drengurinn hafi fengið heilablæðingu.

Þá varð slys í sama íþróttahúsi hálftíma áður þegar stúlka hlaut opið beinbrot á fimleikaæfingu hjá Gerplu. Stúlkan var að hoppa á trampólíni þegar slysið varð.

Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, segir að fulltrúar Kópavogsbæjar, fulltrúar frá Fimleikasambandinu, fulltrúar starfsmanna Gerplu og fulltrúar frá Versölum hafi fundað í dag með presti og þar hafi verið ákveðið að áfallahjálp verði veitt þeim sem þurfi slíka aðstoð vegna atburða gærdagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×