Innlent

Ferð ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins til Írans umdeild

Ferð ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins til Írans um síðustu helgi kemur nefndarmönnum í utanríkismálanefnd Alþingis á óvart. Heimildarmenn innan stjórnarráðsins hafa áhyggjur af neikvæðum áhrifum heimsóknarinnar á framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Um síðustu helgi heimsótti Grétar Már Sigurðsson ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu Írana heim og fundaði hann meðal annars með Monouchehr Mottaki utanríkisráðherra Írana. Íranska ríkisfréttastofan IRNA greindi heimsókninni og var þar sem meðal annars er haft eftir Grétari að Íslendingar meti tengsl og samskipti sín við Íran mikils.

Fréttastofa hafði samband við nefndarmenn í utanríkismálanefnd Alþingis í dag vegna heimsóknarinnar og vissu sumir þeirra ekki af ferðinni þegar haft var samband við þá. Nokkrir nefndarmannanna sem rætt var við sögðu ferðina kom á óvart enda þætti þeim tilgangur samskiptanna við írönsk stjórnvöld óljós - svo og hvort að heimsóknin gæti að einhverju leyti haft neikvæð áhrif á framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Írönsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd mjög fyrir kjarnorkuáætlun sína en í byrjun vikunnar samþykkti Öryggisráð sameinuðu þjóðanna ályktun um nýjar refsiaðgerðir gegn Írönum til að knýja þá til að hætta að auðga úran til framleiðslu kjarnorku.

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri-grænna á sæti í utanríkismálanefnd Alþingis hann telur æskilegt að nefndin hefði verið látin vita af heimsókninni áður en hún var farin þar sem Íslendingar hafi þarna sent út sinn háttsettasta embættismann og aðstæður séu mjög viðkvæmar.

Grétar Már sagði í samtali við fréttastofu í dag að heimsóknin hefði verið farin til að athygli á kostum Íslendinga í tengslum við framboð Íslands til öryggisráðsins. Hann segir viðræðurnar hafa verið þess eðlis að ekki hafi þurft að bera ferðina undir utanríkismálanefnd.

Ekki náðist í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra í dag vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×