Innlent

Segja forstjóra PFS stjórna með hroka og yfirgangi

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.
Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.
Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, Hrafnkell V. Gíslason, ógnar starfsmönnum sínum og leggur þá í einelti, að sögn starfsmanna stofnunarinnar.



Vísir greindi fyrst frá máli Póst- og fjarskiptastofnunar á föstudaginn. Síðan þá hefur Vísir rætt við fimm aðila sem hafa starfað hjá fyrirtækinu, bæði fyrrverandi starfsmenn og núverandi starfsmenn. Enginn þeirra treysti sér til að koma fram undir nafni, enn sem komið er. Allir höfðu þeir sömu sögu að segja. Þeir segja að frá því að Hrafnkell hafi tekið við stöðu forstjóra árið 2002 hafi hann haldið stofnunni í gíslingu. Hann stýri með hroka og fjandsamlegri framkomu gagnvart undirmönnum sínum.

Máli sínu til stuðnings vísa þeir starfsmenn sem Vísir hefur rætt við til könnunar sem unnin var á vegum Fjármálaráðuneytisins. Þar komi meðal annars fram að 20% starfsmanna hafi talið að þeir hefðu orðið fyrir einelti á vinnustað, eða fimm af 25 starfsmönnum. Þá hafi PricewaterhouseCoopers gert úttekt á stofnunni, að ósk samgönguráðuneytisins, sem hafi sýnt svipaðar niðurstöður.

Vísir hefur undir höndum minnisblað sem einn fyrrverandi starfsmaður stofnunarinnar sendi samgönguráðuneytinu. Þar kemur meðal annars fram að Hrafnkell bregðist illa við mótlæti. Hann hækki röddina, leyfi fólki ekki að ræða málin með rökum eða eðlilegum skoðanaskiptum, grípi fram í og loki á umræður með yfirgangi. Makar starfsmanna verði oft vitni að hegðun Hrafnkels og verði jafnvel fyrir henni sjálfir.

Í frétt Vísis á föstudag kom fram að á þremur árum hafi um helmingur starfsmanna stofnunarinnar sagt upp. Þeir starfsmenn sem eftir eru segja að Hrafnkell skeyti engu um þetta þrátt fyrir að starfsemi stofnunarinnar byggi á mjög sérhæfðri þekkingu starfsmanna.

Vísir hefur ekki náð tali af Hrafnkeli í morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×