Innlent

Gagnrýni Hrafns stenst ekki gagnrýni

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ræddi á bloggsíðu sinni í gær um ummæli Hrafns Bragasonar sem féllu á málþingi Orators á miðvikudaginn. Hrafn sagði þar að ekkert væri að kerfinu sem notað er til að skipa dómara hér á landi. „Vandamálið að mínu mati er þessi ráðherra," sagði Hrafn og átti þar við Björn.

Í gegnum tíðina hefur tíðkast að ráðherrar velji dómara úr hópi þeirra sem matsnefnd eða Hæstiréttur hafa metið hæfasta í starfið. Björn hefur hins vegar gert undantekningar á þessu og nú síðast gerði Árni Mathiesen, settur dómsmálaráðherra, það einnig þegar Þorsteinn Davíðsson var skipaður dómari við Héraðsdóma Norðurlands eystra og Austurlands.

„Af spurningum fréttamanna skilst mér, að Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstarréttardómari, hafi veist að mér fyrir veitingu dómaraembætta á málþingi Orators miðvikudaginn 27. febrúar," segir Björn á síðu sinni en hann er staddur erlendis. „Ég veit ekki hvað Hrafn hefur fyrir sér. Gagnrýni hans stenst einfaldlega ekki gagnrýni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×