Erlent

Þarf að bregðast við sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo

Boris Tadic var í gær endurkjörinn forseti Serbíu. Fyrsta verkefni hans verður bregðast við yfirvofandi sjálfstæðisyfirlýsingu í Kósóvó héraði. Þeirri þróun eru Serbar andsnúnir.

Fulltrúar Evrópusambandsins munu hafa varpað öndinni léttar í morgun þegar ljóst var að Tadic hafi haf sigur í seinni umferð forsetakosninganna og þar með fellt frambjóðanda þjóðernissinna, Tomislav Nikolits.

Sá síðarnefndi er fyrrverandi bandamaður Slóbódans Milosevic og óttuðust því margir afturhvarf til fyrri tíma yrði hann kjörrinn. Tadic er hlynntur nánari samvinnu við Evrópusambandið en Nikolits leit frekar í austur, og vildi aukið samstarf við Rússa.

Tadic vann nauman sigur - fékk fimmtíu og eitt prósent atkvæða, Nikolic fjörutíu og sjö prósent.

Forsetaembættið er að mestu táknrænt í Serbíu. Forsetinn er þó æðsti yfirmaður hersins og hefur töluvert að segja um utanríkismálastefnu landsins. Þess vegna var litið svo á að kosningarnar í gær væru mikilvægur áfangi í leið Serbíu inn í Evrópusambandið en formlegt umsóknarferli hófst 2005.

Erfitt verkefni bíður forsetans. Yfirvofandi sjálfstæðisyfirlýsing Albana í Kosovo-héraði. Báðir forsetaframbjóðendur lýstu sig harðlega andvíga henni í kosningabaráttunni.

Sameinuðu þjóðirnar hafa stjórnað héraðinu síðan 1999 þegar loftárásir Atlantshafsbandalagsins, undir forystu Bandaríkjamanna, hröktu herlið Serba þaðan. Serbar voru sakaðir um harkalegar árásir á aðskilnaðarsinna Albana. Bandaríkjamenn og flest ríki ESB styðja sjálfstæði héraðsins. Rússar eru andvígir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×