Erlent

Kosningabaráttan hafin í Rússlandi

Medvedev og Putin báðu í kirkju í Novocherkassk í gær.
Medvedev og Putin báðu í kirkju í Novocherkassk í gær. MYND/AFP

Kosningabaráttan í Rússlandi hófst formlega í dag þegar frambjóðendur settu upp auglýsingaspjöld og plaköt víða í höfuðborginni vikum fyrir forsetakosningarnar. Frambjóðendurnir geta þó ekki byrjað að koma fram í útvarpi og sjónvarpi fyrr en næstkomandi mánudag þar sem lög banna slíkt nema á virkum dögum.

Fjórir bjóða sig fram. Dmitry Medvedev aðstoðarforsætisráðherra, Gennady Zyuganov formaður Kommúnistaflokksins, Vladimir Zhirinovsky leiðtogi frjálslyda Demókrataflokksins og Andrei Bogdanov leiðtogi Demókrataflokksins.

Medvedev mun ekki geta tekið þátt í öllum kappræðum sökum anna í embætti, en kappræðurnar verða á besta tíma á héraðssjónvarpsstöðum og útvarpsstöðum auk þess að birtast í 20 dagblöðum víða um landið. Frambjóðendum er einnig leyfilegt að nýta fjölmiðla í einkaeign fyrir baráttu sína.

Vladimir Putin forseti má ekki bjóða sig fram þriðja kjörtímabilið í röð. Hann hefur lýst yfir stuðningi við Medvedev. Talið er afar líklegt að Medvedev verði næsti forseti vegna vinsælda Putins.

Gengið verður til kosninga 2. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×