Innlent

Mæður misnotaðra stúlkna vilja Guðmund í sextán ára fangelsi

Guðmundur Jónsson, kenndur við Byrgið, og Helga Haraldsdóttir eiginkona hans.
Guðmundur Jónsson, kenndur við Byrgið, og Helga Haraldsdóttir eiginkona hans.

Mæður þriggja stúlkna sem kærðu Guðmund Jónsson í Byrginu fyrir kynferðislega misnotkun vilja að hann fái sextán ára fangelsi fyrir brot sitt. Þetta kom fram í fréttaskýringaþættinum Kompási, sem sýndur var nú í kvöld. Guðmundur hefur verið ákærður fyrir brot gegn fjórum stúlkum, en samkvæmt almennum hegningarlögum getur hann vænst sex ára fangelsis að hámarki. Mæður stúlknanna segja að eiginkona Guðmundar hafi tekið þátt í brotunum með honum og vilja að hún verði einnig látin svara til saka. Eiginkona Guðmundar hefur þó ekki verið ákærð.

Mæður stúlknanna segja að þrátt fyrir fögur loforð stjórnvalda hafi lítið verið gert fyrir dætur þeirra. Þær hafi ekki fengið þá meðferð á vegum heilbrigðisyfirvalda sem vænst var. Þær segja að dætur sínar hafi verið hundsaðar af heilbrigðis- og félagsmálayfirvöldum og jafnvel mætt fordómum þar. Oddrún Hulda Einarsdóttir, móðir Ólafar Óskar Erlendsdóttur, segir hana hafa óskað eftir að fá að leggjast inn á geðdeild og verið hafnað. Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar tekur undir með mæðrunum. „Það hefur ekkert verið gert fyrir þetta fólk - ekki nokkur skapaður hlutur," segir Sveinn.

Matthías Halldórsson, sem gegndi embætti landlæknis í fjarveru Sigurðar Guðmundssonar, segist hins vegar vera ánægður með störf sérfræðinefndar, undir formennsku Bjarna Össurarsonar geðlæknis, sem stofnuð var eftir að Byrgismálið kom upp. Hann segir enga kvörtun hafa borist til landlæknis vegna starfa geðheilbrigðisstofnana í þessu máli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×