Innlent

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn 4 konum

Guðmundur Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins var í dag ákærður fyrir kynferðisbrot gegn fjórum konum. Rannsókn efnahagsbrota hans stendur enn yfir en við rannsókn málsins þurfti meðal annars að grafa upp bókhaldsgögn Byrgisins úr bakgarði Guðmundar.

Saksóknari sendi ákærurnar frá sér til héraðsdóms Suðurlands í dag. Eins og við greindum frá í fréttum okkar á föstudag þá er Guðmundur ákærður fyrir að hafa um árabil notfært sér andlega annmarka kvennanna til þess að hafa við þær samræði eða önnur kynferðismök meðan þær voru til meðferðar í Byrginu. Ein þeirra var samkvæmt heimildum fréttastofu undir lögaldri þegar brotin áttu sér stað.

Áttu konur kærðu Guðmund vikurnar eftir að sagt var frá meintum brotum hans í fréttaskýringaþættinum Kompási í desember 2006. Mál fjögurra þeirra voru látin niður falla.

Þá var greint frá því þættinum að misferli væri í bókhaldi Byrgisins. Úttekt ríkisendurskoðanda leiddi síðan í ljós að misræmið nam tugum milljónum króna. Málið var sent til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild lögreglunnar og hefur hún verið afar viðamikil. Í Kompási sem sýndur verður annað kvöld er ítarleg umfjöllun um málið og þar kemur meðal annars fram að grafa þurfti bókhald Byrgisins upp úr bakgarði Guðmundar.

Hjá Efnahagsbrotadeildinni fengust þær upplýsingar að vonast sé til að rannsókninni ljúki í lok febrúar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×