Innlent

Björgunarsveitir kallaðar út á suðvestuhorninu

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.

Björgunarsveitir á Suðurlandi og suðvesturhorninu hafa haft í nógu að snúast í morgun við að aðstoða fólk í hvassviðri og ofankomu.

Björgunarsveitir Árborgar, Þorlákshafnar og í Hveragerði hafa allar verið á ferðinni á tveimur bílum hver að aðstoða fólk sem hefur fest bíla sína, bæði í grennd við bæina og á Hellisheiði. Nú er ófætt um Hellisheiði, á Sandskeiði og í Þrengslum og á mörgum leiðum á Suðurlandsundirlendinu er þungfært.

Þá hafa björgunarsveitir á Akranesi og í Borgarnesi sinnt sams konar útköllum. Enn fremur hafa sveitir á Suðurnesjum haft í nógu að snúast og er Reykjanesbrautin nú lokuð.

Í Reykjavík hafa björgunarsveitir einnig sinnt bílum sem fest hafa í sköflum og þá voru sveitir einnig kallaðar út laust fyrir klukkan níu þar sem þakplötur voru farnar að fjúka í Ölduselsskóla í Breiðholti.

Bílvelta varð í Ártúnsbrekkunni fyrir um stundarfjórðungi síðan. Ekki er vitað hve margir voru í bifreiðinni en sem betur fer slasaðist enginn, að sögn lögreglu. Slökkviliðið segir að mikið sé um minniháttar óhöpp í umferðinni þessa stundina og eiga sjúkrabifreiðar erfitt með að komast leiðar sinnar vegna ófærðar og bíla sem sitja fastir á götunum.

Vegagerðin segir ekkert ferðaveður á Suðurlandi, Reykjanesi og Vestulandi og bendir á að ófært sé um Bröttubrekku og þungfært á Holtavörðuheiði.

Við þetta má bæta allt millilandaflug liggur niðri að sögn Guðjóns Arngrímssonar upplýsingafulltrúa Icelandair. Tvær farþegavélar komu til landsins frá Ameríku í morgun, en önnur þurfti að lenda á Egilsstöðum og hin á Reykjavíkurflugvelli. Vélar sem áttu að fara frá Reykjavíkurflugvelli í morgun bíða þess enn að geta tekið á loft. Að sögn Guðjóns er vonast til að Keflavíkurflugvöllur verði opnaður að nýju innan fárra stunda. Innanlandsflug er að fara af stað en enn er óvíst með flug til Vestmannaeyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×