Innlent

Ólafur segir að Svandísi hafi verið boðinn borgarstjórastóllinn

Ólafur F. Magnússon, verðandi borgarstjóri í Reykjavík.
Ólafur F. Magnússon, verðandi borgarstjóri í Reykjavík.

Ólafur F. Magnússon, verðandi borgarstjóri, segir að sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafi verið að þreifa á öllum flokkum í fráfarandi meirihluta alveg frá því að upp úr samstarfi D- og B - lista slitnaði fyrir þremur mánuðum. Hann segir að sjálfstæðismenn hafi meðal annars boðið Svandísi Svavarsdóttur borgarstjórastólinn. Þetta kom fram í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag. Þar sagði Ólafur að viðræður um meirihlutasamstarf milli sín og sjálfstæðismanna hafi átt skamman fyrirvara og alvara fyrst færst í leikinn í gær.

Ólafur segir helstu ástæðuna fyrir því að hann sleit meirihlutanum í samstarfi við Framsóknarflokkinn, VG og Samfylkingu vera þá að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til stefnumála F-listans. „Það var einungis Dagur sem virti sjónarmið F-listans í samstarfinu," sagði Ólafur. Hann sagði jafnframt að ef til vill hefði ekki verið haldið nógu fast um stefnumál F-listans. „En sú málefnaskrá sem við erum nú með er 70% F-lista stefnuskrárplagg," segir Ólafur.

Ólafur segist enn trúa því að Margrét Sverrisdóttir taki þátt í meirihlutastarfi með D - lista og axli ábyrgð í nefndum eins og hún hafi gert hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×