Innlent

Auralaus og kærustulaus á Akranesi

MYND/HKr

Lögreglan á Akranesi glímdi við heldur óvenjulegt verkefni í liðinni viku. Þá tóku lögreglumenn á eftirlitsferð eftir manni sem sat á ferðatösku, árla morguns, skammt frá Akratorgi.

Nokkrum tímum síðar sat maðurinn þar enn þá og var orðinn heldur ræfilslegur að sjá enda kalt í veðri. Gáfu lögreglumenn sig á tal við hann og reyndist þetta vera útlendingur sem var nýkominn til Íslands til að hitta kærustuna sína og ætlaði að dvelja hjá henni í hálfan mánuð. Hún mun hafa átt að sækja hann á þennan stað en hún er búsett ekki langt frá Akranesi.

Ekki náðist í konuna og fékk maðurinn því húsaskjól og heitt kaffi á lögreglustöðinni. Dagurinn leið að kvöldi og ekki náðist í kærustuna. Lögreglan aðstoðaði manninn við að finna ódýra gistingu yfir nóttina en hann var auralítill.

Að morgni næsta dags varð lögreglan aftur vör við manninn í reiðuleysi með ferðatöskuna. Aftur var honum boðið skjól á lögreglustöðinni og þegar leið á daginn náðist loks samband við konuna sem vildi ekkert með manninn hafa.

Segir í dagbók lögreglunnar að nú hafi góð ráð verið dýr. Aumingja maðurinn var vegalaus á Íslandi, peningalaus, kærustulaus, með farmiða sem gilti heim eftir hálfan mánuð og þekkti engan nema stúlkuna sem hann hélt að væri kærastan hans.

Lögreglumenn á vakt tóku til við að leita ráða fyrir manninn og tókst að fá inni fyrir hann á færeyska sjómannaheimilinu í Reykjavík. Lögreglumenn sáu síðast til mannsins þar sem hann fór inn í strætisvagn til Reykjavíkur og greiddi fargjaldið með peningum sem vakthafandi lögreglumenn höfðu gefið honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×