Erlent

Gordon Brown í sinni fyrstu heimsókn til Kína

Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands er nú í sinni fyrstu opinberu heimsókn til Kína. Brown mun ræða við kínverska ráðamenn um aukin viðskipti milli landanna og umhverfismál

Brown og Wen Jiabo forsætisráðherra Kína hafa þegar samþykkt að auka viðskiptin milli Bretlands og Kína um 50% á næstu tveimur árum. Á þeim tíma eiga viðskiptin að ná 30 milljörðum punda á ári eða sem svarar til um 3.600 milljarða króna.

Brown segir að hann telji að aukin viðskiptatengsl við Kína muni hafa í för með sér tugi þúsunda af nýjum störfum í Bretlandi. Og hann vonar að Bretland verði í fremstu röð þegar kínverskir fjárfestar leiti að tækifærum utan heimalands síns.

Hópur breskra athafnamanna og fjárfesta eru í föruneyti Brown í Kína svipað og var upp á teningnum þegar Frakklandsforseti heimsótti landið í lok síðasta árs og hélt þaðan heim með viðskiptasamninga upp á milljarða dollara í vasanum.

Það ríkir ekki jafnmikil eining meðal Brown og kínverska ráðamanna þegar kemur að umhverfismálunum og þá sérstaklega hlýnun jarðar. Kínverjar hafa ekki áhuga á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eins og Brown hefur rætt um við þá. Þeir segja að landið sé enn þróunarland og eigi því rétt á tilslökunum í þessum efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×