Erlent

Viðbúnaður vegna flóða í sunnanverðri Afríku

Frá Mapútó í Mósambík.
Frá Mapútó í Mósambík. MYND/Sigríður B. Tómasdóttir

Rauði krossinn í Mósambík hefur kallað út rúmlega 400 sjálfboðaliða til björgunarstarfa á flóðasvæðum í landinu og hefur að minnsta kosti 200 manns verið bjargað úr sjálfheldu af láglendi. Flóðin má rekja til mikilla rigninga.

Fram kemur á vef Rauða kross Íslands að önnur landsfélög í sunnanverðri Afríku og sendinefnd Alþjóða Rauða krossins í Jóhannesarborg séu nú í viðbragðsstöðu vegna mikillar hættu á flóðum. Búist er við því að flóðin valdi enn meira tjóni í mörgum Afríkuríkjum, fyrst og fremst í Svasílandi, Lesotó, Malaví, Mósambík, Sambíu og Simbabve.

Alþjóða Rauði krossinn mun einnig veita sem svarar um það bil 28 milljónum íslenskra króna úr neyðarsjóði sínum til að styðja við aðgerðir vegna flóðanna.

Þrír starfsmenn Rauða kross Íslands eru nú að störfum í sunnanverðri Afríku. Það eru þær Nína Helgadóttir með aðsetur í Mósambík sem stýrir samvinnuverkefnum á sviði heilsugæslu og félagslegrar aðstoðar í Mósambík, Malaví og Suður-Afríku, Birna Halldórsdóttir sem starfar að verkefnum á sviði neyðarvarna og fæðuöflunar í Malaví og Huld Ingimarsdóttir sem stýrir fjármálum og breytingarferli á svæðisskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Simbabve.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×