Erlent

Pistorius fær ekki að keppa á fótum frá Össuri

Alþjóða frjálsíþróttasambandið ákvað í dag að suður-afríski hlauparinn Oscar Pistorius fengi ekki að keppa á Ólympíuleikunum í Peking. Pistorius hefur misst báða fætur og hleypur á gervilimum frá Össuri.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið segir að Pisterius fái ekki að keppa í Peking af því að gervifæturnir gefi honum forskot á aðra keppendur. Pisterius er 21 árs. Hann fékk gull og brons á Ólympíuleikum fatlaðra 2004 en vildi núna keppa við ófatlaða. Ákvörðunin í dag er honum því mikið áfall.

Össur hefur stutt Pisterius um nokkurt skeið og hann hleypur á Cheetah Flex-foot gervifótum frá fyrirtækinu. Peter Bruggeman, vísindamaður við þýska íþróttaháskólann í Köln, kemst að þeirri niðurstöðu í skýrslu að þessir gervifætur gefi Pisterius umtalsvert forskot yfir heilbrigða íþróttamenn. Össur segir að prófanirnar, sem skýrslan byggir á, hafi ekki verið nógu vandaðar og byggist á röngum forsendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×