Erlent

Rúmlega 150.000 Írakar hafa fallið frá upphafi stríðsins

Ný rannsókn sýnir að alls hafa rúmlega 150.000 Írakar fallið síðan að Bandaríkjamenn réðust inn í landið árið 2003. Að mestu er um almenna borgara að ræða

Um er að ræða viðamestu rannsókn sem gerð hefur verið á þessu sviði en hún var gerð á vegum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. Niðurstöðurnar um mannfallið byggja á samtölum við 9.000 fjölskyldur sem dreifast um allt landið. Í ljós kemur að helmingur manfallsins hefur orðið í Bagdad höfuðborg Íraks.

Þeir sem stóðu að gerð skýrslunnar segja að talan 151.000 manns sé varlega áætluð en sú tala þýðir samt að 120 manns hafa fallið á hverjum degi í Írak frá því að Bandaríkjamenn réðust inn í landið í mars árið 2003 og fram til loka árins 2006.

Fjöldi þeirra sem fallið hafa í heild samkvæmt skýrslunni er þrefalt meiri en áður var talið. Til samanburðar má nefna að George Bush hefur nefnt töluna 30.000 sem fjölda þeirra sem fallið hafa í átökunum í Írak á fyrrgreindu þriggja ára tímabili.

Aðrar kannanir hafa sýnt mun meira mannfall en þessi skýrsla greinir frá. Til dæmis má nefna skýrslu sem birt var í breska læknablaðinu Lancet árið 2006 þar sem því var haldið fram að yfir 650.000 Írakar hefðu fallið eftir að stríðsátökin hófust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×