Innlent

Boðaði byltingu við fögnuð

Mótmælandinn Haukur Hilmarsson boðaði í gær „algjöra, almenna og tafarlausa byltingu" eftir að honum var sleppt úr fangelsi um sexleytið í gærkvöldi.

Ónefndur velgjörðamaður Hauks greiddi fyrir hann sektina og því var honum sleppt. Haukur sagði það hafa verið erfiða ákvörðun að þiggja greiðsluna.

„Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera því ég er algjörlega á móti því að borga þessa sekt," sagði hann. Eina ástæðan væri að honum skildist að fólk væri í hættu fyrir framan húsið. „Ég vildi ekki að gott fólk myndi slasa sig við að bjarga einhverjum tittlingi. Heldur frekar að þessi kraftur yrði notaður í að knésetja þessa ríkisstjórn."

Hann ætlar að kanna réttarstöðu sína enda telur hann handtöku sína hafa farið fram á ólöglegan hátt. Hann segir lögregluna hafa tjáð sér að hann væri eftirlýstur maður þegar hann var handtekinn. Það hafi hann ekki haft hugmynd um sjálfur.

„Já, og mér finnst að allir ættu að halda áfram aðgerðum," segir Haukur, spurður hvort hann ætli að halda áfram aðgerðum. Hann er þó ekki tilbúinn að sýna andlit sitt. „Mér finnst að fólk eigi ekki að vera andlit fyrir það sem er að gerast. Mér finnst að það eigi að fjalla um málefni. Ég vil ekki verða persónugervingur þessa máls."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×