Innlent

Greiða sjálfboðaliðum 15.000 kr. fyrir prófun lýsisstíla

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Það er Lýsi hf. sem annast framleiðslu stílanna.
Það er Lýsi hf. sem annast framleiðslu stílanna. MYND/Lýsi hf.

Læknadeild Háskóla Íslands óskar eftir sjálfboðaliðum til þátttöku í rannsókn á kremi og endaþarmsstílum sem unnið er úr þorskalýsi og ætlað er að mæla þol heilbrigðra einstaklinga gagnvart þessari nýjung sem þróuð er og unnin að öllu leyti hér á landi.

Það er Oculis, sprotafyrirtæki í eigu Einars Stefánssonar augnlæknis og Þorsteins Loftssonar, prófessors í eðlislyfjafræði, sem stendur á bak við rannsóknina en Lýsi hf. leggur til hráefni til framleiðslu vörunnar.

„Þetta byggist á því að lýsið hefur bæði bólgueyðandi og sýkladrepandi áhrif. Þetta er verkefni sem við vinnum í samvinnu við Þorstein og fleiri í lyfjafræðideild og læknadeild Háskólans í þeim tilgangi að nýta þessa virkni lýsis og fitusýra í lyfjatilgangi ef svo má segja," útskýrir Einar. „Við vorum að rannsaka lýsisaugndropa og það leiddi okkur út í þetta," bætir hann við.

Þrjár læknisskoðanir og notkun í tvær vikur

Orri Þór Ormarsson barnaskurðlæknir kemur að rannsókninni ásamt Einari og Þorsteini. „Um er að ræða krem og stíla sem byggjast á lýsi. Við ætlum að rannsaka hversu vel þetta þolist í heilbrigðum einstaklingum. Þeir sem taka þátt í rannsókninni koma þrisvar sinnum í læknisskoðun og nota svo kremið og stílana í tvær vikur," segir Orri.

Hann segir framhaldsrannsókn svo fara fram síðar og ákvarði hún hvort lyfið geti virkað við ýmsum kvillum, svo sem góðkynja endaþarmssjúkdómum og hægðatregðu.

Þeim, sem hafa áhuga á að taka þátt í rannsókninni, er bent á að senda Helgu Halblaub hjá Landspítalanum póst á netfangið helghalb@landspitali.is. Ætlunin er að rannsaka 30 manna hóp og greiðast 15.000 krónur fyrir þátttökuna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×