Innlent

Segja lengingu flugbrautar á Akureyri sóun

Húsvíkingar segja að lenging flugbrautar á Akureyri sé sóun, nær væri að byggja upp Húsavíkurflugvöll þar sem flugaðstæður séu miklu betri. Samgönguráðherra segir þessar hugmyndir óraunhæfar.

Í Morgunblaðinu gerir Friðrik Sigurðsson, sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi, alvarlegar athugasemdir við forgangsröðun flugsamgöngumannvirkja hér á landi. Hann telur að samgönguráðherra, Kristján Möller, hafi gert mikil mistök með því að láta lengja flugbrautina á Akureyri, með ærnum tilkostnaði.

Enda hafi það margoft verið sannað og síðast fyrir nokkrum dögum að veðurfarsleg skilyrði við Eyjafjörðinn séu vond fyrir flug og að beina hafi þurft millilandaflugi frá Akureyri til Egilsstaða og ferja fólk austur í þriggja tíma rútuferð.

Rétt forgangsröðun að mati Friðriks er að samgönguráðherra láti byggja upp Húsavíkurflugvöll sem stendur verkefnalítill í Aðaldal. Það muni taka Akureyringa aðeins 30 mínútur að aka á alþjóðaflugvöllinn í Aðaldal sem verði alltaf opinn, ólíkt Akureyrarvelli sem liggi með þrönga fjallgarða til beggja hliða og háa fjalltoppa til suðurs. Samgönguráðherra vísar þessari gagnrýni á bug.Tengd skjölAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.