Hollenski landsliðsmaðurinn Rafael van der Vaart hjá Hamburg í Þýskalandi segist á heimasíðu sinni vera búinn að samþykkja að ganga í raðir Real Madrid á Spáni.
Van der Vaart hefur lengi verið orðaður við spænska félagið en Hamburg hefur neitað tveimur tilboðum Real í kappann að undanförnu.
"Þetta gekk allt í gegn í gærkvöldi og ég er nú á leið til Real Madrid," segir Hollendingurinn á heimasíðu sinni.
"Mig hefur alltaf langað að fara til Spánar og það er sannkallaður draumur fyrir mig. Ég verð kynntur til sögunnar sem nýjasti leikmaður Real á morgun."
Spænskir fjölmiðlar segja að leikmaðurinn hafi gert fimm ára samning og að kaupverðið hafi verið um 10 milljónir evra.
Van der Vaart lék áður með Ajax en á spænska móður. Ef hann gengur í raðir Real verður hann fimmti Hollendingurinn í herbúðum liðsins, en þar eru fyrir þeir Ruud van Nistelrooy, Arjen Robben, Royston Drenthe og Wesley Sneijder.