Innlent

Segir samgönguráðherra skorta skilning eða pólitískt þor

Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar.
Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar.
Kristján L. Möller, samgönguráðherra, skortir skilning á náttúruvernd eða pólitískt þor til að taka tillit til náttúruverndarsjónarmiða, að sögn Bergs Sigurðssonar framkvæmdastjóra Landverndar. Hann segir Vegagerðina vera ríki í ríkinu.

Málum þar sem framferði Vegagerðarinnar er í hæsta máta ámælisvert fer fjölgandi að mati Bergs. Hann nefnir Gjábakkaveg, veg um Teigskó og Dettifossveg sem dæmi um náttúruspjöll sem Vegagerðin virðist ætla að hefja. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landvernd.

,,Það er komin tími til þess að samgönguyfirvöld fari að sýna náttúru Íslands tilhlýðilega virðingu. Það er með öllu óþolandi að hvernig Vegagerðin er farin að hegða sér eins og ríki í ríkinu á meðan samgönguráðherra skellir við skollaeyrum í hverju málinu á fætur öðru. Nú eru uppi a.m.k. þrenn áform, þ.e. Gjábakkavegur, vegur um Teigskóg og Dettifossvegur, þar sem verulegir náttúruverndarhagsmunir eru í húfi. Svo virðist sem samgönguráðherra skorti annað hvort skilning á náttúruvernd eða pólitískt þor til þess að taka tillit til náttúruverndarsjónarmiða," segir Bergur í tilkynningunni.

Landvernd vill að nýr Dettifossvegur verði lagður sem næst núverandi vegi en ekki með Jökulsá, örstutt frá ánni ofan í hamfarahlaupsfarvegi hennar, eins og útboð Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir. Samtökin vilja að vegurinn vestan Jökulsár verði ferðamannavegur en framtíðarþjóðleiðin verði lögð austan Jökulsár. Þá vill Landvernd að öll áform Vegagerðarinnar um Gjábakkaveg verði tekin til endurskoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×