Erlent

Fimmtíu látnir í átökum sjía og lögreglu í Írak

MYND/AP

Að minnsta kosti 50 manns hafa látið lífið í átökum milli síjamúslima og lögreglu í borgunum Basra og Nasiría í Írak síðasta sólarhring.

Til átakanna kom eftir að meðlimir í sérstrúarsöfnuði síjamúslima, Hermenn himannna, gerðu skotárás á lögreglu og aðra síjamúslima í gær. Lögreglumenn svöruðu skothríðinni og lágu að minnsta kosti 50 valnum, þar á meðal tveir lögreglumenn og tíu ára gamall drengur.

Flokkar síjamúslima hafa á undanförnum árum háð blóðuga valdabaráttu sín á milli í suðurhluta Íraks og er talið að árásirnar í gær sé liður í þeirri valdabaráttu.

Nú stendur yfir Ashura-hátíðin sem er ein helgasta hátíð Síja múslima. Milljónir pílagríma hafa streymt til borgarinnar Karbala í miðhluta Írak og eru lögregla og her í viðbragðsstöðu. Í fyrra létu 263 lífið þegar til átaka kom milli flokka síjamúslima og hermanna þegar Ashura-hátíðin stóð sem hæst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×